Skapa öflugt vistkerfi nýsköpunar í háskólasamfélaginu
Síðastliðið vor undirrituðu Norðanátt og Háskólinn á Akureyri samstarfssamning sín á milli með það að sjónarmiði að kortleggja núverandi stöðu innan skólans í málefnum nýsköpunar og finna leiðir til að draga fram nýsköpunar- og frumkvöðlakraft sem býr innan veggja Háskólans á Akureyri. Markmið með samstarfinu er að skapa framtíðarsýn og innleiðingu nýsköpunar í starfsemi skólans og einnig að aðstoða við að móta stefnu nýsköpunar fyrir HA og heildarstefnu háskólans frá árinu 2024.
Samstarfið hefur gengið afar vel, en í vetur hefur þverfaglegur hópur úr háskólasamfélaginu unnið gríðarlega gott starf með Norðanátt í rýnihópavinnu við að kortleggja og greina ofangreind markmið. Vinnan er sem segir vel á veg komin og tekur verkefnastjórn Norðanáttar nú við að greina gögn og leggja inn tillögur til stjórn skólans. Þá mun Norðanátt einnig kynna verkefnið, niðurstöður og tillögur fyrir starfsfólki með vorinu.
Lykilatriði samstarfsins hefur einnig verið að efla hugarfar nemenda gagnvart nýsköpun og hvernig þeir geta tekið þátt í nýsköpun. Norðanátt í samvinnu við HA og SHA hafa skipulagt og staðið að viðburðum með nýsköpunarívafi með það að markmiði að kveikja frumkvöðlaneista hjá nemendum.
Framundan í þeim efnum er viðburðurinn miniVísó, sem haldin verður á Akureyri þann 13. apríl nk. á VAMOS á Ráðhústorgi en á dagskrá þess viðburðar verður m.a. pubquiz með nýsköpun að leiðarljósi, við fáum til okkar fyrirmyndir úr frumkvöðlasenunni á Norðurlandi, heyrum um nýsköpun í starfandi fyrirtækjum á svæðinu, spjall við fjárfesta, sköpunargleði og margt fleira.
Við hvetjum nemendur og aðra áhugasama að taka daginn frá!