Fyrsti mentorafundurinn í Startup Storm

Fyrsti mentorafundur viðskiptahraðalsins Startup Storms fór fram síðastliðinn fimmtudag. Á fundinum hittu teymin sex reynslumikla aðila víða úr atvinnulífinu með mismunandi bakgrunn og þekkingu. Við þökkum þessum mentorum kærlega fyrir þennan ómetanlegan stuðning til frumkvöðlanna okkar.

Linda Fanney Valgeirsdóttir

Linda Fanney Valgeirsdóttir er framkvæmdastýra og meðstofnandi Alor. Eftir 11 ár í heimi lögfræðinnar fór Linda úr hlýju hins opinbera yfir í hina stormasömu sprotasenu þar sem hún hefur öðlast dýrmæta þekkingu, reynslu og tengsl sem hún vill gjarnan miðla áfram.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir

Ragnheiður Magnúsdóttir er stofnandi og englafjárfestir hjá Nordic Ignite. Ragnheiður hefur komið víða við í íslensku atvinnulífi. Hún hefur um 20 ára reynslu í breytingastjórnun í fjölmörgum fyrirtækjum og stofnunum. Hún hefur tekið þátt í gerð fyrstu nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, verið mentor og ráðgjafi fyrir fjölda sprotafyrirtækja og hefur almennt mikinn áhuga á nýsköpun og tækni.

Kjartan Sigurðsson

Kjartan Sigurðsson er lector við Viðskipta og Raunvísindasvið Háskólans á Akureyri (HA). Kjartan er með doktorsgráðu frá Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og hefur víðtæka reynslu á sviði rannsókna, sem framkvæmdastjóri, frumkvöðull og kennari. Kjartan hefur starfað víða við ráðgjöf á innleiðingu og framkvæmd áætlanagerða í fyrirtækjum, mótun nýrra viðskiptamódela og með áherslu á nýsköpun í Evrópu og á Íslandi. Sérþekking Kjartans er á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, sjálfbærni, frumkvöðlafræða og nýsköpunar.

Oddný Anna Björnsdóttir

Oddný Anna Björnsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og beint frá býli og eigandi Geislar Gautavík ehf. (sem er í fjölbreyttum rekstri og frumkvöðlastarfsemi). Hennar helsta reynsla er matvælamarkaðurinn, þróun á neytendamarkaði, málefni landbúnaðarins, frumkvöðlastarfsemi, eigin rekstur, stefnumótandi áætlanagerð, gerð viðskiptaáætlunar, vöruþróun, verkefna- og vörustjórnun, markaðs- og sölumál, breytingastjórnun og fyrirtækjasameiningar, regluverk, vottanir, merkingar matvæla, hagsmunagæsla og almannatengsl.

Karl Guðmundsson

Karl Guðmundsson hefur yfir 20 ára reynslu af vöruþróun, sölu- og markaðsmálum. Hann starfaði um árabil í Bandaríkjunum í ýmsum stjórnunarstöðum m.a. hjá Össuri, Biomet og Ekso Bionics. Karl er sjúkraþjálfari að mennt og hefur MBA gráðu frá Rady School of Management UCSD. Hann er forstjóri Florealis ehf. en var áður forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu um þriggja ára bil.

Rannveig Björnsdóttir

Rannveig Björnsdóttir er dósent við auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannveig hefur yfir 25 ára reynsla af rannsóknum og nýsköpun í samstarfi við íslenska matvælaframleiðendur og tengdar greinar, með áherslu á bætta nýtingu og verðmætasköpun úr ónýttum og verðlitlum hliðarafurðum. Hennar áhersla hefur einnig verið á þróun verðmæta úr ýmiskonar náttúruafurðum með sjálfbærum hætti. Rannveig hefur mikla reynslu af handleiðslu nemenda í hagnýtum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í sumarstarfi svo og til bakkalár- og meistaragráðu og einnig nokkrum til doktorsgráðu.

Previous
Previous

Sex nýjir mentorar í Startup Storm

Next
Next

Sjö teymi taka þátt í startup Storm